Færsluflokkur: Bloggar
Fimmtudagur, 21. júní 2018
Skoðanakönnun og blogg-frí
Eins og flestir hafa tekið eftir, þá var skoðanakönnun í gangi hér á blogginu mínu í síðustu viku. Niðurstöðurnar voru sem hér segir:
Það kemur á óvart hversu margir úr Samfylkingunni, Pírötum og Viðreisn skoða bloggið mitt - en svosem ekkert neikvætt við það.
En nú er komið að bloggfríi. Þakka þeim sem lásu bloggið.
Bestu kveðjur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Laugardagur, 16. júní 2018
Veruleikafirrtur sáttmáli um gjaldþrota öfgamiðjustefnu
Þegar rykið er sest eftir nýliðnar sveitarstjórnarkosningar er rétt að staldra við og fara yfir málin. Nú hefur meirihluti verið myndaður í Reykjavík á grunni gamla meirihlutans, VG, Samfylkingarinnar og Pírata þar sem Viðreisn kemur sem fjórða hjólið undir vagninn - þrátt fyrir yfirlýsingar um allt annað. Sáttmáli þeirra fjögurra flokka sem að meirihlutanum standa virtist hafa verið erfiður í fæðingu, og maður veltir fyrir sér hvernig standi á því ?
Þurfti tvær vikur til að sannfæra Pawel Bartoszek um ágæti þess ofbeldissambands sem hann var í þann mund að undirgangast ? Pawel hefur nefnilega tjáð sig um ofríki skattheimtu, og líkt því ástandi við ofbeldi. Pawel hefur á endanum sannfærst, og þegar lesið er yfir sáttmálann þá virðist það vera svo að einn af starfsmönnum DAGS hafi skrifað hann meðan forsvarsmenn Samfylkingar, VG og Pírata voru að sannfæra Pawel. Reyndar var Dóra Björt í skólanum, svo hún hefur sennilega ekki lagt sitt lóð á vogarskálarnar í verkefninu.
Sáttmálinn inniheldur í raun ekki neitt, nema hreina afneitun á því ömurlega ástandi sem ríkir í Reykjavík. Í honum felst fullkomin afneitun, og engin merki er þar að finna um vilja til betrumbótar, svo vitnað sé beint í hann:
Reykjavík er falleg og lifandi borg í örum vexti. Við eigum öll að geta
fundið okkar stað í tilverunni í Reykjavík.
Við sem myndum meirihluta fjögurra flokka: Samfylkingar, Viðreisnar,
Pírata og Vinstri grænna, höfum sammælst um að gera góða borg
betri.
Við ætlum að byggja öflugt og þétt borgarlíf fyrir okkur öll með nægu
framboði af húsnæði, sjálfbærum hverfum, heilnæmu umhverfi,
skilvirkum samgöngum, fjölbreyttu atvinnulífi og einfaldri, aðgengilegri
og lýðræðislegri umsýslu.
Flest af því sem hér kemur fram er beinlínis rangt. Er Reykjavík falleg og lifandi borg ? Er borg þar sem rusl er ekki hirt, götur ekki þrifnar, gras ekki slegið, falleg og lifandi ? Flokkarnir fjórir segja borgina "góða" og vilja gera hana "betri". Ef ekki er horfst í augu við ástandið, þá er ljóst að fyrirætlanir um að bæta það verða brenndar því marki. Með öðrum orðum; það á augljóslega ekki að gera neitt.
Síðasta málsgreinin undirstrikar svo það sem áður hefur komið fram. Fyrst er fullyrt að Reykjavík sé "góð" borg, síðan er fyrirætlunum um nægt framboð húsnæðis, sjálfbærni hverfa og skilvirkni í samgöngum lýst. Ekkert af þessu er til staðar í Reykjavík eins og staðan er nú og Samfylkingin sem leiðir viðræðurnar hefur haft 8 ár til að uppfylla þessi markmið án nokkurs árangurs. Hvers vegna ætti fólk að trúa því að breyting verði á þessu nú, þegar Viðreisn er hlaupinn undir vagninn ?
Átakanlegast er þó að lesa í gegnum sáttmálann og sjá þar enga tilraun til að lýsa leiðinni að nefndum markmiðum. Þegar hlustað er á forsvarsmenn meirihlutans er ekki að sjá að þetta fólk hafi setið með hvoru öðru í 2 vikur í þeim tilgangi að móta stefnu fyrir Reykjavík til framtíðar, heldur þvert á móti hefur samkundan sennilega einkennst af sjálfumgleði og yfirborðsmennsku.
Dóra Björt segir með sinni klisjukenndu og gelgjulegu rödd: "Sáttmálinn er sko mjö Píratalegur". Já, hann er það svo sannarlega vegna þess að hann inniheldur ekkert markvert.
Þórdís Lóa mætir í Kastljósið gegnt Eyþóri Arnalds, þar sem henni tekst að tala í 10 mínútur um ekki neitt - sem er einmitt lýsandi dæmi um málefnafátækt þessa fólks. Hún gat ekki svarað neinu af því sem Eyþór beindi að henni, og í raun tók hún undir gagnrýni hans þegar hún samsinnti því að ýmis mál muni fara yfir á næsta kjörtímabil.
Meirihluti Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og VG, með minnihluta atkvæða að baki sér, ætlar sem sagt að vera ofur-svalur í hinni ofur-svölu Reykjavík í 4 ár - án þess að gera neitt - meðan láglaunafólk stritar fyrir launum, sem rétt duga fyrir húsaleigunni sem er orðin þannig vegna húsnæðisskorts-stefnunnar sem Samfylkingin hefur stundað síðastliðin 8 ár. Svo þegar kjörtímabilinu er lokið á að telja fólki trú um að allt muni gerast á því næsta. Þetta höfum við hlustað á fyrir kosningarnar árin 2010, 2014 og nú árið 2018.
Fyrir nýliðnar kosningar var sett upp blekking. Björt framtíð hvarf af sjónarsviðinu og Viðreisn steig fram. Þetta var gert í þeim tilgangi að framlengja líf meirihlutans, fólki var talin trú um að Viðreisn vildi breytingar. Svipað var uppi á teningnum árið 2014, þá var fólki talin trú um að VG og Píratar, yrðu stjórnmálaöfl sem kæmu inn með jákvæðar breytingar - það gagnkvæma kom síðar í ljós. Ef farið er lengra aftur, þá var okkur talin trú um það árið 2010 að Besti flokkurinn væri nýtt afl með ferskar hugmyndir. Annað kom síðar í ljós þegar Besti flokkurinn gekk inn í Samfylkinguna árið 2014.
Hvaða blekkingum á að beita fyrir kosningarnar árið 2022, sem tryggir Samfylkingunni áframhaldandi völd ? Hversu lengi er hægt að plata kjósendur til fylgis við ómögulega stjórnmálaflokka ? Vonandi ekki endalaust.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 14. júní 2018
Minni á skoðanakönnunina
Eitthvað ætlar þessi skoðanakönnun að vera misheppnuð, en aðeins 49 hafa tekið þátt í henni síðastliðna daga. Ég hvet alla lesendur til að taka þátt, en könnunin er hér vinstra megin við fréttina og lítur svona út:
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Miðvikudagur, 13. júní 2018
Yfirlýsing !
Vér lýsum því yfir að vér viljum eigi starfa með Pírötum, meðan vér drögum andann, ekki með þeim sjálfum né 10 þeirra sem af þeim koma - að eilífu.
Það skal svo gert vegna fádæma heimsku þeirra á sviði stjórnsýslunnar, aðfarar þeirra gegn Braga Guðbrandssyni og órökréttra yfirlýsinga almennt.
Vér afneitum Pírötunum með öllu !
Kveðja,
Flokkur skynseminnar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 12. júní 2018
Siðlausi meirihlutinn í Reykjavík
Sá meirihluti sem er nú formlega myndaður um stjórn Reykjavíkurborgar til ársins 2022 hefur meirihluta borgarfulltrúa að baki sér, en aðeins 46,4% atkvæða. Eins og mátti búast við þá ákvað Viðreisn að leiða gamla meirihlutann til valda og nú fá Samfylkingin, VG og Píratar framhaldslíf við stjórnun borgarinnar. Þeir sem kusu Viðreisn, vildu breytingar, en fá nákvæmlega það sama aftur. Það er veruleikinn sem við blasir.
Einn þingmaður Pírata, Björn Leví Gunnarsson, lét eitt sinn stór orð falla á Alþingi um meirihluta með minnihluta atkvæða að baki sér:
Ég skil ekki að fólk hafi siðferðilega getað kvittað undir það að fara í meirihlutasamstarf ekki með lýðræðislegan meirihluta á bak við þá ákvörðun. Ég skil það ekki. Ég hef áhyggjur af því siðferði, satt best að segja.
Þegar Katrín Atladóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, innti Píratann að þessu á twitter voru svörin á þessa leið:
Af tveimur slæmum kostum, þetta eða setja xd í valdastól þá er valið auðvelt. Það er nefnilega til verri kostur sko. Lagið siðferði flokksins og þá breytist sú afstaða.
Björn Leví vill að xd lagi sitt eigið siðferði, en krefst ekki samræmis í eigin siðferðisvitund. Hún getur verið valkvæð þegar þannig ber undir.
Nú stundaði gamli meirihlutinn í Reykjavík ekkert sérstaklega gott siðferði á liðnu kjörtímabili, og ber þar helst að nefna ódýrar lóðir fyrir auðmanninn Ólaf Ólafsson, ásamt lögbrotum gegn öryrkjum í félagsbústöðum Brynju. Ósamræmi í siðferðisvitund Björns Leví, þarf því ekkert að koma stórkostlega mikið á óvart, svona miðað við hvaða siðlausa hópi hann tilheyrir sem Píratarnir eru svo sannarlega.
Sá meirihluti sem nú ríkir í borginni er í rauninni ekkert nýr af nálinni, því hann var myndaður undir merkjum annarra flokka árið 2010. Til þess að frjálslynda vinstrið geti haldið völdum, er nauðsynlegt að breyttt sé um nöfn á flokkum svo fólk fatti ekki að það er í raun að kjósa sama ruglið yfir sig aftur og aftur.
Árið 2010 voru Besti flokkurinn og Samfylkingin með samtals 32.010 atkvæði að baki sér, eða 53,8% atkvæða.
Árið 2014 voru Samfylkingin, Björt framtíð, Píratar og VG með samtals 33.756 atkvæði að baki sér, eða 61,7% atkvæða. Hér var ákveðið að kippa VG inn með og mikilvægt er að átta sig á því að Besti flokkurinn og Samfylkingin á kjörtímabilinu 2010 2014 eru Samfylkingin, Björt framtíð og Píratar á kjörtímabilinu 2014 2018. VG var því tekið inn til að styrkja meirihlutann.
Árið 2018 eru Samfylkingin, Viðreisn, Píratar og VG með samtals 27.328 atkvæði að baki sér, eða eins og áður segir 46,4% atkvæða. Mikilvægt er að átta sig á því að Besti flokkurinn og Samfylkingin á kjörtímabilinu 2010 2014 eru Samfylkingin, Viðreisn og Píratar nú. Að taka VG inn í pakkann, skilar sér í 6.428 færri atkvæðum en á fyrra kjörtímabili.
Ef kjósendur hefðu vitað að Viðreisn ætlaði að hlaupa undir með gamla meirihlutanum, hefðu þau svo sannarlega ekki fengið umboð til þess. Í staðinn fyrir að kjósendur fái þær breytingar sem þeir kusu, fá þeir vitleysuna sem þeir höfnuðu í boði siðlausa meirihlutans með minnihluta atkvæða að baki sér. Verum dugleg að minna á það allt kjörtímabilið.
![]() |
Dagur áfram borgarstjóri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 12. júní 2018
Umkvartanir vinstri manna dæmdar sem væl
Frá árinu 2012 hafa fjölmargar nafnlausar Facebook veitur staðið að áróðri gegn Sjálfstæðisflokknum, Framsóknarflokknum og nú nýverið, Miðflokknum. Þessar veitur hafa starfað óáreittar, með stuðningi og hvatningu vinstri manna og Pírata. Sem dæmi þá deildi ráðgjafi Pírata, Atli Þór Fanndal, áróðursmyndbandi frá veitunni Kosningavaktinni með hvatningarorðunum: Gleðilega hátíð krakkar.
Pírötum er þannig séð sama um nafnlausan áróður, svo framarlega sem hann beinist ekki að vinum þeirra í vinstrinu og þeim sjálfum.
Eftir að bæra fór á áróðri gegn Pírötunum og vinstri vinum þeirra, breyttist hins vegar viðhorfið og Helgi Hrafn hinn heilagi fann skyndilega þörf hjá sér til að blása út siðferðisboðskap sínum yfir herlegheitin. Fyrir það fær hann mörg læk og hjörtu á Facebook og Píratarnir geta í smá stund ímyndað sér að sakaskrá þeirra í nafnlausum áróðri sé hrein.
Hamagangurinn og lætin yfir nafnlausum áróðri gegn Pírötum og villta vinstrinu var svo leiddur af flokksblöðum frjálslyndisins, Stundinni og Kjarnanum. Flokkar eins og Píratar og Viðreisn, gerði svo sitt til þess að kalla fram skýrslugerð um málið sem leiddi auðvitað ekki til neinnar niðurstöðu nema þess sem vitað var; vinstri menn og Píratar eru væluskjóður.
Að fá þann gildisdóm, staðfestan í skýrslu frá Forsætisráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur, er ákveðin viðurkenning í sjálfu sér.
Næsta skref er að flokkarnir opni bókhaldið og sýni hvert kostnaður við almannatengslaþjónustu renni. Athyglisverðast yrði að sjá bókhald Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar. Gæti verið að nöfn Stundarinnar og Kjarnans sé að finna þar ?
![]() |
Nafnlausar herferðir ekki ólöglegar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 13.6.2018 kl. 14:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 11. júní 2018
Vanvirðing við lýðræðið
Nú standa yfir meirihlutaviðræður Samfylkingarinnar, VG, Pírata og Viðreisnar eftir kosningar þar sem þessir flokkar ásamt öðrum sóttu pólitískt umboð til kjósenda til stjórnarsetu í borginni. Ef rýnt er í niðurstöðurnar er erfitt að sjá að komið hafi ákall frá kjósendum um að þessi meirihluti yrði myndaður.
Samfylkingin tapaði töluverðu fylgi frá kosningunum 2014, svo kjósendur voru svo sannarlega ekki að kalla eftir því að sá flokkur yrði við forystu í borginni. Það sama má segja um VG og samkvæmt lýðræðislegri niðurstöðu kosninganna ættu þessir flokkar að fara í frí.
Það er hins vegar alveg skýrt hver á að leiða meirihlutann og það er sá flokkur sem fékk flest atkvæði Sjálfstæðisflokkurinn. Þeir flokkar sem ættu að skipa meirihlutann með honum eru bæði nýir flokkar í borgarstjórn og flokkar sem bættu við sig frá fyrri kosningu.
Ef fara ætti eftir lýðræðinu, þá ættu Viðreisn, Píratar, Miðflokkurinn, Flokkur fólksins og Sósíalistaflokkurinn að skipa meirihlutann ásamt Sjálfstæðisflokknum. Sósíalistaflokkurinn vill ekki vera í meirihluta, svo hann er úti að eigin ósk. Píratar vilja ekki virða lýðræðislega niðurstöðu kosninganna, svo þeir eru líka úti.
Eftir standa Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn, Miðflokkur og Flokkur fólksins. Viðreisn lætur hins vegar hugmyndafræðilegan ágreining í utanríkismálum ráða för um það við hvern er myndaður meirihluti. ESB eða evran verða ekki á borði borgarstjórnar sem einhver framtíðarmálefni. Svo mikið er víst.
En Viðreisn kýs að vanvirða lýðræðið með því annars vegar að taka saman við flokkana sem var hafnað, Samfylkinguna og VG, og hins vegar flokkinn með ólýðræðislegu útilokunaráráttuna, Pírata.
Ef af þessum meirihluta verður, er það hrein vanvirðing við kjósendur, lýðræðið og framgang þess. Ef af þessum meirihluta verður, er líklegt að kjörsókn muni minnka því fólk mun ekki skynja sig sjálft sem áhrifavald í lýðræðislegu ferli.
Ef af meirihlutasamstarfi verður með þeim flokkum sem nú ræða saman, er það meirihlutasamstarf um vanvirðingu við lýðræðið; þann gildisdóm fá Samfylkingin, VG, Píratar og Viðreisn. Sjáum hvað setur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 11. júní 2018
Skoðanakönnun
Núna klukka 02:00 birtist skoðanakönnun hér á bloggsíðunni og vil ég hvetja alla lesendur til að taka þátt. Mig hefur alltaf langað til að vita hvernig lesendahópurinn er samsettur. Þeir flokkar sem eru með í könnuninni, eru þeir 8 flokkar sem sitja á Alþingi í dag.
Könnunin verður til klukkan 02:00, 18 júní 2018.
Góðar stundir !
Bloggar | Breytt 14.6.2018 kl. 22:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 6. júní 2018
Fyrirbærið DAGUR
Sósíalistinn Árni Daníel Júlíusson skrifar nokkuð skarpa grein um ástandið í borginni á vef Sósíalistaflokksins. Þrátt fyrir að ég geti ekki lýst mig sammála öllu því sem þar kemur fram, þá finnst mér sú ádeila sem birtist í greininni á stjórnartíð Dags Eggertssonar í borginni nokkuð merkileg fyrir þær sakir að hún kemur frá manni sem kennir sig við vinstri stefnu, sem er einmitt sú stefna sem Dagur hefur viljað kenna sjálfan sig við. Þessar tvær meintu vinstri stefnur virðast þó eiga einstaklega illa saman, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Nokkrar staðhæfingar úr greininni eru einstaklega skarpar, og get ég lýst mig sammála þeim í einu og öllu, en meðfylgjandi er brot af því besta:
DAGUR er ekki persóna, heldur fyrirbæri sem á sér uppruna í Reykjavíkurlista Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur.
Reykjavíkurlistinn var tilraun til þess að nýfrjálshyggjuvæða vinstri flokkana undir fánum sjálfsmyndarstjórnmála þar sem kynferðis- og kynþáttaminnihlutar fengu að leika lausum hala.
Hipster-kúltúrinn er mikilvægur þáttur í áframhaldandi tilvist fyrirbærisins, Reykjavíkurlistans-Besta flokksins-DAGS hinnar ofursvölu Reykjavíkur.
Eftir að Besti flokkurinn rann hljóðlega saman við Samfylkinguna í kosningunum 2014, varð DAGUR fullmótaður og stýrði borginni næstu fjögur árin.
DAGUR hefur ekkert gert til að ráða bót á skelfilegum húsnæðismarkaði sem er þannig að starfsfólk á leikskólum er að borga jafn mikið í leigu og þau eru að fá í laun.
DAGUR er afturganga Reykjavíkurlistans, tímaskekkja, misskilningur sem hefur orðið til fyrir tilviljun og hefur ekkert að gera með vinstri stefnu.
Viðreisn, sem nú stendur í meirihlutaviðræðum við DAG í Reykjavík, hefur líkt og DAGUR engan áhuga á því að vita hvernig leikskólakennarar í fokdýrum leiguíbúðum hafa það.
Í ljósi sögu DAGS er undarlegt að nokkur vinstri maður skuli vilja ljá máls á því að halda því við völd.
Það ætti að benda á það mjög oft á dag, þangað til öllum er orðið ljóst að DAGUR er tímaskekkja og ekki upp á hann púkkandi, ekki ef menn vilja láta telja sig alvöru vinstri menn. En við sitjum uppi með þetta fyrirbæri í Ráðhúsinu næstu fjögur árin.
Þegar Sósíalistar eru farnir að ráðast gegn DEGI með þessum hætti er fokið í flest skjól hjá hrokkinhærða glaumgosanum.
Bloggar | Breytt 5.6.2018 kl. 18:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Föstudagur, 1. júní 2018
Meirihlutaviðræður um hvað ?
Nú um þessar mundir standa yfir viðræður um myndun meirihluta Samfylkingar, VG, Pírata og Viðreisnar í borginni og því vert að reyna að átta sig á því um hvað þær snúast. Sjálfur hefur höfðingi viðræðnanna, Dagur B. Eggertsson, sagt þær snúast um samgöngu- og skipulagsmál. En stefna Samfylkingarinnar hefur verið skýr í þá veru; flokkurinn hefur viljað þétta byggð, þar sem dýrustu byggingalóðir eru. Þéttingarstefnan hefur leitt til þess að of fáar íbúðir hafa verið byggðar á kjörtímabilinu og hefur íbúðaverð því hækkað töluvert af tveimur ástæðum. Til samanburðar þá voru tilbúnar íbúðir 401 í Mosfellsbæ árið 2017, á móti 322 í Reykjavík margfalt stærra sveitarfélagi.
Einnig hafa framkvæmdir á sviði umferðarþrenginga verið áberandi í stjórnartíð Samfylkingarinnar, ásamt lélegri þjónustu við borgarbúa, og þá sér í lagi við barnafólk sem hefur þurft að vera heima við löngum stundum vegna manneklu í leikskólum borgarinnar. Þetta tvennt fer illa saman, og hafa barnafjölskyldur fengið smjörþefinn af því sem koma skal í krata-bænum.
Ef Dagur fer með rétt mál um eðli viðræðnanna, er augljóst að þær eru á villigötum, því stefnu Dags og félaga var hafnað í nýliðnum kosningum. Árið 2014 fékk Samfylkingin 17.426 atkvæði, eða 31,9%, á móti 15.260 atkvæðum nú, eða 25,9%. Dagur B. hreinlega lagði sjálfan sig og sína stefnu undir í kosningabaráttunni með fjölda skilta með sjálfum sér og þeim stefnumálum sem hann stendur fyrir með fyrirliggjandi árangri.
Hjá Vinstri grænum voru áherslur talsvert ólíkar áherslum Samfylkingarinnar, en líkt og hjá Samfylkingunni, var Sóley Tómasdóttir og störf hennar á kjörtímabilinu lögð fyrir dóm kjósenda. Miðað við hversu ólíkar áherslur þessara tveggja flokka eru, var sérstakt að sjá Vinstri græna lýsa yfir einbeittum vilja til að vinna með Samfylkingunni að kosningum loknum. Vinstri grænir vildu leggja höfuð áherslu á borgarbúa og þarfir þeirra, meðan Samfylkingin vildi láta þá sem minnst hafa milli handanna áfram líða fyrir húsnæðisskort. Vinstri græn vildu bíða með fjárfrekar framkvæmdir, meðan engar slíkar áherslur var að finna hjá Samfylkingunni. Samfylkingin beinlínis lofaði mikilli útgjaldaaukningu með tilkomu borgarlínu og Miklubraut í stokk. Það má því skýra með tvennum hætti hvers vegna Vinstri grænum var hafnað í borginni en flokkurinn fékk aðeins 2.700 atkvæði, eða 4.6%, á móti 4.553 atkvæðum árið 2014, eða 8,3%. Hér er skýrt ákall frá kjósendum um að flokkurinn þurfi að fara í frí. Ef ekki hefði komið til fjölgun borgarfulltrúa, hefðu VG ekki fengið neinn.
Ljóst er að Vinstri grænum var hafnað af kjósendum vegna ótrúverðugrar stefnu, sem samrýmdist ekki yfirlýstu markmiði um samstarf við Samfylkinguna, sem hefur fremur hugað að hag fjármagnseigenda í hótelrekstri en þörfum borgarbúa.
Nálgun Pírata var ólík hinum tveimur flokkunum í meirihlutanum. Píratar skiptu út fólkinu sem var orðið samdauna stefnu fráfarandi borgarstjóra en Halldór Auðar Svansson, var nánast ósýnilegur allt kjörtímabilið. Kjósendur virðast hafa trú á því að Dóra Björt geti staðið betur upp í hárinu á Samfylkingunni þegar kemur að mannréttinda- og réttlætismálum eins og t.d. í málefnum öryrkja en fráfarandi meirihluti hefur á sér ljótan blett þar. Þetta gæti skýrt fylgisaukningu flokksins. Hins vegar var stefna Pírata í raun algjörlega eins og stefna Samfylkingarinnar, nema þar var sérstaklega tekið fram að flokkurinn ætlaði að huga að ungu fólki. Kjósendur flokksins hafa þá ekki sett í samhengi, að það er einmitt húsnæðisskortsstefnan sem hefur fest ungt fólk í foreldrahúsum og sér ekki fyrir endann á því.
Kjósendur Pírata fá því ljótan pakka ef af þessum meirihluta verður, sem er áframhaldandi uppbygging húsnæðis fyrir þá allra ríkustu, ásamt stuðningi við fjármagnseigendur í hótelrekstri. Unga fólkið verður áfram í foreldrahúsum. Ekki verður skilið við hér án þess að minnast á framgöngu forystukonunnar í kosningabaráttunni, en það virðist hafa verið sérstakt áhugamál hjá henni að hatast við Sjálfstæðisflokkinn. Nú er fólk á lista Sjálfstæðisflokksins sem hefur ekki gert þessari konu nokkurn skapaðan hlut, og ber framkoma hennar því vott um óheilindi og óheiðarleika. Dóru Björt er líklega ekki treystandi til samstarfs þar sem hún hefur einnig orðið uppvís að lygum um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Þótt það kunni að falla vel í kramið hjá öðrum flokkum að frambjóðandinn ráðist með þessum hætti að Sjálfstæðisflokknum, ættu þeir að hafa í huga að það sama gæti snúið að þeim ef herðir að í meirihlutasamstarfi með Pírötum.
Yfirlýsingar Dags um meinta stefnu viðræðnanna, skýrast af aðkomu Viðreisnar að þeim. Viðreisn kom inn í kosningabaráttuna með reynslulausa forystukonu og virtist móta stefnu sína eftir hentisemi þá og það skipti í byrjun. Þegar fastmótuð stefna lág fyrir, var ljóst að hún var eins og stefna Sjálfstæðisflokksins, að öllu leiti, nema Viðreisn lýsti sig sammála Degi B. og Samfylkingunni þegar kom að húsnæðis- og samgöngumálum. Þetta þarf ekki að koma á óvart þar sem Viðreisn er beinlínis flokkur fjármagnseigenda, ekki ólíkt og Samfylkingin. Hins vegar hefur Viðreisn talað fyrir ábyrgari fjármálastjórnun og lægri álögum á borgarbúa. Pawel Bartoszek hefur beinlínis látið hafa það eftir sér að skattar séu ofbeldi, og má því segja að Pawel sé tilbúin til að undirgangast ofbeldissamband ef af meirihlutasamstarfinu verður.
Það verður þó að teljast fremur varasamt fyrir Viðreisn að ganga alla leið með samstarfið, því þannig festir flokkurinn sig í sessi vinstra megin við miðjuna og þarf að slást um fylgi við fjölflokka-súpuna sem þar er fyrir. Það yrði í raun ánægjulega niðurstaða fyrir Sjálfstæðisflokkinn á landsvísu.
Við þetta verður ekki skilið án þess að minnast á þátt Bjartrar framtíðar, en margir hafa viljað leggja málin þannig fram að meirihlutinn hefði ekki fallið ef Björt framtíð hefði einnig boðið fram í kosningunum. Sú ályktun er galin miðað við það afhroð sem flokkurinn galt í nýliðnum Alþingiskosningum. Hins vegar má leiða að því líkum að margir fyrrum kjósendur Bjartrar framtíðar hafi veðjað á Pírata nú, því ekki fór fylgið þeirra til Samfylkingar eða VG. Mest af því hefur þó farið til Viðreisnar. Þetta atriði myndi vissulega gera lítið úr árangri Pírata, ef skýring á fylgisaukningu þeirra væri andlát eins af fyrrum samstarfsflokkunum.
Yfirlýsingar Þorgerðar Katrínar, formanns Viðreisnar, um Sjálfstæðisflokkinn mætti þó skilja sem svo að hún vilji hreinlega færa flokkinn sinn til vinstri og því mætti einnig draga þá ályktun að viðræðurnar sem nú fara fram snúist fyrst og fremst um sameiginlegt hatur gegn Sjálfstæðisflokknum. Samastarf byggt á þeim grundvelli verður hins vegar seint farsælt.
![]() |
Meirihlutafundur gekk vonum framar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)