Færsluflokkur: Útvarp

Leyndarhyggja RÚV afhjúpuð

Samkvæmt samkomulagi féllst RÚV á að greiða Guðmundi Spartakusi 2,5 milljónir króna af skattfénu okkar, til manns sem stofnunin hafði brotið á með óvarlegri umfjöllun. Við munum öll eftir Sjanghæ. Fréttamönnum á RÚV finnst aukaatriði að stunda vandaðan fréttaflutning.

Ríkismiðillinn er meira í því að hanna fréttir en greina frá staðreyndum og nú bíðum við bara eftir reikningnum vegna Sjanghæ-málsins, þar sem rekstri veitingarstaðar var rústað með áhlaupi frá stofnuninni.

En RÚV gengur lengra en að mannorði fólks, þeir neita líka að afhenda gögn sé eftir því leitað. Nú hefur Úrskurðarnefnd um upplýsingamál kveðið upp úrskurð þess efnis að Ríkisútvarpinu ohf beri að afhenda Vísi samkomulagið við Spartakus. Rökstuðningur fyrir kröfu Vísis var eftirfarandi:

Kæran byggir á því grundvallarsjónarmiði að fjölmiðlar gæti gagnsæis í sínum fréttaflutningi. Þetta á ekki síst við um ríkisrekinn fjölmiðil en tilveruréttur slíks reksturs hlýtur að vera sá að þar séu fagleg sjónarmið höfð í fyrirrúmi.

Þetta snýr með beinum hætti að almannahagsmunum. Það getur ekki verið samningsatriði hvort fréttaflutningur er réttur eða rangur. Ef frétt er röng eða vafasöm í einhverjum atriðum á almenningur rétt á því að vita það. Og þá á sá fjölmiðill engan annan kost en þann að draga fréttina til baka, og/eða leiðrétta og biðjast velvirðingar[…]

RÚV hannar fréttir þar sem leyndarhyggja er kennd við ákveðna stjórnmálamenn og býr til fréttir sem skapa stofnuninni skaðabótaskyldu, reyna að kaupa sig frá því að viðurkenna mistök sín, og stunda svo leyndarhyggju með því að neita að afhenda gögn um sjálfan kaupmálann.

Rökstuðningur Vísis segir í raun allt; tilveruréttur ríkisrekins fjölmiðils veltur á því hvort þar séu fagleg sjónarmið höfð í fyrirrúmi.

Með framferði sínu er RÚV-ið búið að sýna fram á að slíkur tilveruréttur er ekki til staðar.

@Spor3drekinn


Maður trúarinnar

Guðsþjónusta föstudginn langaErfitt er að átta sig á þeirri vegferð sem séra Davíð Þór Jónsson er á um þessar mundir. Hann veður áfram í einhverskonar sjálfsréttlætingu og kastar svarta Pétri á þá sem hann hefur vanþóknun á. Fyrst voru það skötuhjúin á útvarpi Sögu, og síðan Páll Magnússon, og nú flestir sjálfstæðismenn ef því er að skipta.

Er Davíð Þór Jónsson maður trúarinnar ?

Þetta hafði hann að segja um Arnþrúði á útvarpi Sögu:

Þegar útvarpsmennirnir alræmdu og slyngu
opna fyrir símann ég æli,
því boðið er upp á beina útsendingu
frá brjálæðingahæli.
Þar er hatast við Islam og Evrópusambandið
og aðdáun lýst á fasisma.
Öllu skal fórna fyrir föðurlandið,
fávitaskap og rasisma.
Og áfram mallar hið illgjarna bull
því Arnþrúður er full.
Endalaust mallar hið illgjarna bull
og Arnþrúður er full.

Hér virðist presturinn taka afstöðu til hinna ýmsu mála, m.a. Evrópusambandsins, og gefur því neikvæða einkunn að „hatast“ við það. Spyr hann sóknarbörn sín um afstöðu þeirra til ESB, áður en hann hellir ofan í þau messuvíninu ? Var Davíð, maður trúarinnar, fullur þegar hann samdi þetta ?

Davíð lét ekki hér við sitja og hafði eftirfarandi að segja um Pál Magnússon og þá sem voru mættir á Landsfund Sjálfstæðisflokksins (ég er þar meðtalin):

„Sá sem nefnir sannleikann,“
segir hann
og af hneykslan sárri bærist barmur,
„er blaðamennsku endaþarmur.“
Breiðum yfir, bælum, lokum
byrgjum inni, sveipum þokum
að frjálshyggjunnar fúla hít
er full af skít.
 
„Sá sem glæpum greinir frá,“
hann grenjar þá
og af fögrum tárum flóir hvarmur,
„er fjölmiðlanna endaþarmur.“
Breiðum yfir, bælum, lokum … o.s.frv.
 
„Óvinur míns eðla flokks,“
hann emjar loks
og nú blasir við hans bitri harmur,
„er blaðamennsku endaþarmur.“
Breiðum yfir, bælum, lokum … o.s.frv.
 
Endaþarminn óttast hann
sem opnast kann
og sýna öllum innihaldið
sem okkur leyna reynir valdið.
Breiðum yfir, bælum, lokum … o.s.frv.
 
Okkur birtist eðlið sanna
auðmannanna
og um stund var lítill stauli og garmur
stjórnmálanna endaþarmur.
Breiðum yfir, bælum, lokum … o.s.frv.“

Hér tekur presturinn afstöðu með mann greyinu sem mætti á Landsfund Sjálfstæðisflokksins, til þess eins að skrifa níð um fjölda manns sem hann þekkti ekki neitt.

Allt þetta verður einstaklega sérstakt þegar ég rifja upp viðtal sem Frosti Logason tók við Davíð Þór Jónsson á X-inu fyrir síðustu jól. Þar lýsti presturinn þeim erfiðleikum sem hann stæði frammi fyrir þegar hann mætti syrgjendum á erfiðri stundu, og hvernig heilagur andi styrkti hann í starfi sínu, þegar þannig stæði á. En hvað segir guðinn hans Davíðs við þeim leirburði og þeim stælum sem þjónn hans stendur í gagnvart hópi fólks ? Er hægt að segja að Davíð sé fyrirmyndar þjónn Drottins ?

Ætli Davíð Þór sé mjög ósammála trúsystur sinni, Ragnheiði Karítas Pétursdóttur, þegar hún segir:

[…]Því þjónusta við Drottinn – ef hún er stunduð í trú, von og kærleika, getur aldrei, aldrei leitt til annars en friðar.

Ætli friður sé séranum í Laugarneskirkju efstur í huga, þegar hann sest niður og semur níðvísur um fólk sem hann er kallaður til að leiða til trúar á Jesúm Krist ? Er þessi skilningur um trú, von og kærleika eitthvað á reiki innan Þjóðkirkjunnar ?

Sem lexía fyrir sérann ofstoppafulla er rétt að benda honum á upphaf 15 kafla Orðskviðanna:

„Mildilegt svar stöðvar bræði en fúkyrði vekja reiði. Af tungu hinna vitru drýpur þekking, af munni heimskingjanna streymir flónskan […] Hógværð tungunnar er lífstré en fals hennar veldur hugarkvöl.“

Með von um að hann láti af reiðinni og fari að sinna köllun sinni sem þjónn Drottins, ef hann trúir þá á eitthvað þannig yfir höfuð.

david


Tilbúnar íbúðir á matstigi 4-6

Ég hlustaði á athyglisvert viðtal á laugardagsmorguninn sem Pétur á útvarpi Sögu tók við oddvita Framsóknarflokksins í Reykjavík. Þar var því haldið fram að tilbúnar íbúðir á matstigi 4-6, væru 322 fyrir Reykjavík árið 2017, til samanburðar voru 401 íbúðir á því matstigi tilbúnar í Mosfellsbæ fyrir sama ár.

Hvernig má þetta vera ?

Reykjavík er margfalt stærri en Mosfellsbær, sem er að standa sig betur í fokheldum byggingum, tilbúnum til innréttingar. Er þetta eðlilegt ? Myndin hér neðst í færslunni sýnir þetta en hún er úr samantekt frá Arion banka um húsnæðismarkaðinn.

Hvernig stendur á því að Dagur er ekki spurður um þetta ? Hvar er aðhaldið með valdinu núna, sem fjölmiðlar gefa sig út fyrir að vera ? Hvar er Stundin ? Hvar er Kjarninn ? Hvar er RÚV ? Maðurinn virðist sleppa ótrúlega billega, bæði hvað varðar umfjöllun og spurningar sem hann þarf að svara.

Hann er bara súkkulaði, og flýtur áfram á því.

Myndin hér neðst sýnir að í Reykjavík þá hafa íbúðir á matstigi 4-6 verið svona á bilinu 300 – 500 árlega á þessu kjörtímabili, sem er auðvitað alltof lítið. Ef ég man rétt þá stóð til að íbúðum myndi fjölga hér í Reykjavík um 5000 á árunum 2014 – 2019, þar af áttu 3000 að vera félagslegar – sem er svo langt frá því að nást.

Degi verður tíðrætt um íbúðir á hinum ýmsu byggingarstigum og nær að bulla um íbúðir í skipulagi, íbúðir í hönnun, íbúðir sem verið er að byrja á, og svona mætti lengi telja, honum verður einnig tíðrætt um eitthvað sem er í raun ótengt húsnæðisvandanum, eins og stúdenta íbúðir. Einhvern vegin er eins og það þori engin í hann, fréttamenn byrja að spyrja hann, en hann nær einhvern veginn að bulla sig út úr öllum spurningum.

Ef spyrja ætti hvort Dagur hafi staðið við kosningaloforðin, eða að hve miklu marki, þá væri svarið við því að hann hefði staðið við þau að mjög litlu marki, það vantar t.d. enn rúmar 2800 félagslegar íbúðir ef kosningaloforðin ættu að vera uppfyllt.

Dagur er duglegur að þylja upp hvað fasteignafélög eru að gera, aðilar sem byggja ekki íbúðir fyrir þann hóp sem eiga að teljast skjólstæðingar Dags og Samfylkingarinnar, þ.e. fólk sem er á biðlistum eftir félagslegu húsnæði – en Dagur er ekki duglegur að fylgja þeirri stefnu sem hann setti sjálfur árið 2014, að úthluta lóðum til þess að leysa húsnæðisvandann.

Fólk býr ekki í áætlunum sem settar eru fram á glærum, og fólk býr ekki í húsum sem eru í hönnun, eða leyfisferli. Dagur á eftir að ljúga mikið á næstu dögum, alveg eins og hann gerði árið 2014, en það hlýtur að vera kjósenda að fella dóm um verk hans og hvort þau beri vitni um að þessi maður muni standa við nokkuð af því sem hann segir.

Niðurstaðan hlýtur að verða sú að fólk hafni Samfylkingunni, og ef VG og Píratar ætla að mynda kosningabandalag með Degi, þá hlýtur það sama að gilda um þessa flokka – þeim hlýtur öllum að verða hafnað í næstu kosningum. Fólk í Reykjavík er ekki svo vitlaust að falla fyrir sama bragðinu tvisvar og kjósa lygara til valda, það hljóta allir með viti að vera farnir að sjá í gegnum Dag B. Eggertsson.

Húsnæðismarkaður

 

 


Umfjöllun Harmageddon um landsfund Sjálfstæðisflokksins

Ég fór á minn fyrsta landsfund nú um helgina sem landsfundarfulltrúi, og verð að lýsa hrifningu minni á því starfi sem þar fór fram. Sérstaklega var ánægjulegt að fylgjast með hve mikið af ungu og öflugu fólki lét til sín taka á fundinum, og framtíðin í Sjálfstæðisflokknum er greinilega björt.

Ég myndi lýsa fundinum sem fundi átaka, sem fundu síðan lýðræðislegan farveg í atkvæðagreiðslu í sal. Dæmi um mál sem tekist var á um voru húsnæðismál og skattamál, en tekist var á um hvort leyfa ætti lögheimilisskráningu í frístundarbyggð, hvort leyfa ætti notkun deilihagkerfis í útleigu íbúða og hvort stefna skyldi að því að lækka skattprósentuna í 25% á næstu árum en það síðast nefnda var samþykkt með meirihluta atkvæða landsfundarfulltrúa.

Fólki var oft heitt í hamsi en allir undu þó lýðræðislegri niðurstöðu fundarins og stóðu flokksmenn sameinaðir eftir hann, sem er einmitt mesti styrkur Sjálfstæðisflokksins. Þar ríkir sá þroski að óþarfi sé að hlaupa til og stofna nýja stjórnmálaflokka, séu ósætti um einhver tiltekin málefni.

Fundurinn var málefnalegur og fræðandi, þar sem virðing var borin fyrir ólíkum sjónarmiðum, og fólk sameinaðist í markmiðum sínum að mannbætandi samfélagi.

Að þessu sögðu var sérstakt að hlusta á þá félaga Frosta og Mána í Harmageddon í morgun, þar sem fundinum var lýst sem ólýðræðislegri trúarsamkomu. Hafa þeir félagar sótt margar þannig samkomur ? Það hef ég gert á árunum 2009 – 2013, og ég get ekki sagt að landsfundurinn um helgina hafi verið í neinni líkingu við þær. Á trúarsamkomum eru engin átök um málefni og allir eru sammála, enda gefur heiti samkomunnar það til kynna; „trúar“-samkoma.

Ekki veit ég hvers vegna þeir Frosti og Máni efast um lýðræðið innan Sjálfstæðisflokksins. Nú er ég nýlega gengin í flokkinn, og þekki því þar afskaplega fáa, en það var þó engin hindrun fyrir mig að fá sæti á fundinum, og atkvæðisrétt, sem landsfundarfulltrúi. Ég hafði kost á því að leggja fram breytingartillögur í málefnanefndum, og tala fyrir því, bæði þar og inn á fundinum að þær fengju brautargengi. Er hægt að biðja um eitthvað meira ? Hverjar eru hugmyndir þeirra Harmageddon bræðra um lýðræðið ?

Ég varð satt best að segja fyrir vonbrigðum með þá félaga í Harmageddon, sem yfirleitt eru málefnalegir, en þeir tóku þarna einhvern mannræfil í viðtal sem hafði mætt á landsfundinn á föstudaginn sem gestur, og skrifað í kjölfarið pistil á Stundinni, þar sem hann velti fyrir sér hversu margir barnaníðingar væru í salnum. Þetta fannst þeim Frosta og Mána mjög sniðugt, hvöttu manninn til að vera ekkert með neitt samviskubit yfir þessu.

Ég velti því fyrir mér hvert íslensk fjölmiðlun er komin, ef þetta er orðin venjubundin og viðurkennd orðræða meðal fjölmiðla.

Einhversstaðar heyrði ég að þeir sem kölluðu fólk nöfnum á netinu, eitthvað sem þeir þyrðu ekki að gera í eigin persónu, væru smámenni. Þann gildisdóm er svo sannarlega hægt að fella um viðkomandi pistlahöfund Stundarinnar, sem er það smámenni, að hann læddist með veggjum þegar hann mætti í öðru sinni á landsfundinn sem gestur á sunnudeginum. Hírðist upp í rjáfri eins og hræddur rakki, og vonaði að engin fyndi hann þar. Tilgangurinn var að finna fleiri tilefni til níðingsskrifa um hóp fólks, sem hann nú þorir ekki að mæta í eigin persónu.


Sjanghæ ætlar að stefna RÚV

Fréttastofa RÚV á nú von á stefnu frá veitingastaðnum Sjanghæ á Akureyri. Tilefnið er fyrirferðarmikil umfjöllun um staðinn, þar sem fyrirsögnum var slegið upp í æsifréttastíl.

„Grunur um mansal,“ „eigandi staðarins grunaður um mansal,“ „rannsókn á meintu mansalsmáli enn til skoðunar.“

Heimildirnar eru eftir sem áður kjaftasögur sem tíðkast á kaffistofum fyrirtækja. Engin fótur er fyrir þeim ásökunum sem RÚV hefur haldið uppi um staðinn. Umfjöllunin var tilefnislaus árás fjölmiðils sem hefur það hlutverk að flytja fréttir en stundar í stað þess innihaldslaust og ómerkilegt slúður. Hlutlægni og vandaður fréttaflutningur er fjarri þeim sem þar starfa.

Jóhannes Sigurðarson, lögmaður veitingastaðarins, hrekur málflutning RÚV þegar hann þvertekur fyrir að lögreglan á Norðurlandi hafi haft samband við eigendur staðarins eins og fullyrt var í frétt Ríkisútvarpsins. Stéttafélagið Eining tók það skýrt fram að upplýsingar um vinnumansal væru ekki frá þeim komnar – að ekkert væri til í fullyrðingum fréttastofunnar.

En hvað liggur hér að baki ? Hvað verður til þess að RÚV fer af stað með þessar staðleysur ? Getur verið að fréttamenn RÚV hafi þessa mynd af staðnum vegna uppruna eigenda hans ? Við viljum ekki ætla þeim það. En hvaðan komu heimildirnar fyrir fréttinni ? Elta fréttamenn RÚV kjaftasögur og kaffistofuslúður við fréttaöflun ? Hvernig ætlar RÚV að axla ábyrgð á þessu klúðri ?

Skattgreiðendur eiga heimtingu á svörum við þessum spurningum. Hver verður næst tekin fyrir af fréttastofunni ?

Afleiðingar þesslegra árása eru alvarlegar. Byrgjar hafa slitið samstarfi við staðinn, dóttir eigandans þorir ekki í skóla vegna árása sem hún hefur orðið fyrir eftir herferð fréttastofunnar. Ég hef áður fjallað um RÚV, sem er bastarður sem á ekki rétt á sér. Þessi hörmungarsaga staðfestir það.


RÚV er bastarður sem á ekki rétt á sér

Kristín Þorsteinsdóttir skrifar ágæta grein á Vísi í gær. Þar fer hún hörðum orðum um RÚV sem hrifsar til sín sífellt stærri hlut af auglýsingamarkaði auk þess að fá um 4 milljarða af fjárlögum. RÚV nýtur líka velvildar hjá samkeppniseftirlitinu líkt og MS og fær „óeðlilegt olnbogarými í bullandi samkeppni“. RÚV nýtur líka velvildar hjá ákveðnum þingmönnum á vinstri væng stjórnmálanna – enda fá þeir áróðurinn sinn ókeypis hjá stofnuninni.

Kristín segir um RÚV:

Þegar RÚV var breytt í opinbert hlutafélag, ohf., losnaði það undan sjálfsögðum skyldum ríkisstofnana en hélt áfram að fá fé úr ríkiskassanum. Ohf. er bastarður sem ekki á rétt á sér. Ríkið á RÚV með húð og hári og því ættu reglur um starfsemi ríkisins að gilda. Stofnunin er hins vegar undanþegin helstu kvöðum sem lagðar eru á ríkisstofnanir. Hún er óháð upplýsingalögum og sjálfdæmið í mannaráðningum er mikið.

Sjálfdæmi í mannaráðningum fer eftir hentugleika þeirra sem stýra málum hjá RÚV. Þeir eru ráðnir sem líklegir eru til að fjalla um málin frá „réttu“ sjónarhorni. „Rétt“ og „röng“ gildi eru svo skilgreind af RÚV sem notar yfirburðar stöðu sína á fjölmiðlamarkaði til að stýra umræðunni í ákveðin farveg. Þegar RÚV var venjuleg ríkisstofnun, þá var markmiðið að stunda hlutlæga fjölmiðlun. Þannig er það ekki í dag.

Fjölmiðill sem er með fjóra milljarða á fjárlögum, er laus við sjálfsagðar skyldur ríkisstofnanna og stundar hlutdræga fjölmiðlun er bastarður sem á ekki rétt á sér. Það á við um RÚV og þessu þarf að breyta. Allt sem til þarf er pólitískur vilji og hugrekki. Hver þorir ?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband