Laugardagur, 16. júní 2018
Veruleikafirrtur sáttmáli um gjaldþrota öfgamiðjustefnu
Þegar rykið er sest eftir nýliðnar sveitarstjórnarkosningar er rétt að staldra við og fara yfir málin. Nú hefur meirihluti verið myndaður í Reykjavík á grunni gamla meirihlutans, VG, Samfylkingarinnar og Pírata þar sem Viðreisn kemur sem fjórða hjólið undir vagninn - þrátt fyrir yfirlýsingar um allt annað. Sáttmáli þeirra fjögurra flokka sem að meirihlutanum standa virtist hafa verið erfiður í fæðingu, og maður veltir fyrir sér hvernig standi á því ?
Þurfti tvær vikur til að sannfæra Pawel Bartoszek um ágæti þess ofbeldissambands sem hann var í þann mund að undirgangast ? Pawel hefur nefnilega tjáð sig um ofríki skattheimtu, og líkt því ástandi við ofbeldi. Pawel hefur á endanum sannfærst, og þegar lesið er yfir sáttmálann þá virðist það vera svo að einn af starfsmönnum DAGS hafi skrifað hann meðan forsvarsmenn Samfylkingar, VG og Pírata voru að sannfæra Pawel. Reyndar var Dóra Björt í skólanum, svo hún hefur sennilega ekki lagt sitt lóð á vogarskálarnar í verkefninu.
Sáttmálinn inniheldur í raun ekki neitt, nema hreina afneitun á því ömurlega ástandi sem ríkir í Reykjavík. Í honum felst fullkomin afneitun, og engin merki er þar að finna um vilja til betrumbótar, svo vitnað sé beint í hann:
Reykjavík er falleg og lifandi borg í örum vexti. Við eigum öll að geta
fundið okkar stað í tilverunni í Reykjavík.
Við sem myndum meirihluta fjögurra flokka: Samfylkingar, Viðreisnar,
Pírata og Vinstri grænna, höfum sammælst um að gera góða borg
betri.
Við ætlum að byggja öflugt og þétt borgarlíf fyrir okkur öll með nægu
framboði af húsnæði, sjálfbærum hverfum, heilnæmu umhverfi,
skilvirkum samgöngum, fjölbreyttu atvinnulífi og einfaldri, aðgengilegri
og lýðræðislegri umsýslu.
Flest af því sem hér kemur fram er beinlínis rangt. Er Reykjavík falleg og lifandi borg ? Er borg þar sem rusl er ekki hirt, götur ekki þrifnar, gras ekki slegið, falleg og lifandi ? Flokkarnir fjórir segja borgina "góða" og vilja gera hana "betri". Ef ekki er horfst í augu við ástandið, þá er ljóst að fyrirætlanir um að bæta það verða brenndar því marki. Með öðrum orðum; það á augljóslega ekki að gera neitt.
Síðasta málsgreinin undirstrikar svo það sem áður hefur komið fram. Fyrst er fullyrt að Reykjavík sé "góð" borg, síðan er fyrirætlunum um nægt framboð húsnæðis, sjálfbærni hverfa og skilvirkni í samgöngum lýst. Ekkert af þessu er til staðar í Reykjavík eins og staðan er nú og Samfylkingin sem leiðir viðræðurnar hefur haft 8 ár til að uppfylla þessi markmið án nokkurs árangurs. Hvers vegna ætti fólk að trúa því að breyting verði á þessu nú, þegar Viðreisn er hlaupinn undir vagninn ?
Átakanlegast er þó að lesa í gegnum sáttmálann og sjá þar enga tilraun til að lýsa leiðinni að nefndum markmiðum. Þegar hlustað er á forsvarsmenn meirihlutans er ekki að sjá að þetta fólk hafi setið með hvoru öðru í 2 vikur í þeim tilgangi að móta stefnu fyrir Reykjavík til framtíðar, heldur þvert á móti hefur samkundan sennilega einkennst af sjálfumgleði og yfirborðsmennsku.
Dóra Björt segir með sinni klisjukenndu og gelgjulegu rödd: "Sáttmálinn er sko mjö Píratalegur". Já, hann er það svo sannarlega vegna þess að hann inniheldur ekkert markvert.
Þórdís Lóa mætir í Kastljósið gegnt Eyþóri Arnalds, þar sem henni tekst að tala í 10 mínútur um ekki neitt - sem er einmitt lýsandi dæmi um málefnafátækt þessa fólks. Hún gat ekki svarað neinu af því sem Eyþór beindi að henni, og í raun tók hún undir gagnrýni hans þegar hún samsinnti því að ýmis mál muni fara yfir á næsta kjörtímabil.
Meirihluti Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og VG, með minnihluta atkvæða að baki sér, ætlar sem sagt að vera ofur-svalur í hinni ofur-svölu Reykjavík í 4 ár - án þess að gera neitt - meðan láglaunafólk stritar fyrir launum, sem rétt duga fyrir húsaleigunni sem er orðin þannig vegna húsnæðisskorts-stefnunnar sem Samfylkingin hefur stundað síðastliðin 8 ár. Svo þegar kjörtímabilinu er lokið á að telja fólki trú um að allt muni gerast á því næsta. Þetta höfum við hlustað á fyrir kosningarnar árin 2010, 2014 og nú árið 2018.
Fyrir nýliðnar kosningar var sett upp blekking. Björt framtíð hvarf af sjónarsviðinu og Viðreisn steig fram. Þetta var gert í þeim tilgangi að framlengja líf meirihlutans, fólki var talin trú um að Viðreisn vildi breytingar. Svipað var uppi á teningnum árið 2014, þá var fólki talin trú um að VG og Píratar, yrðu stjórnmálaöfl sem kæmu inn með jákvæðar breytingar - það gagnkvæma kom síðar í ljós. Ef farið er lengra aftur, þá var okkur talin trú um það árið 2010 að Besti flokkurinn væri nýtt afl með ferskar hugmyndir. Annað kom síðar í ljós þegar Besti flokkurinn gekk inn í Samfylkinguna árið 2014.
Hvaða blekkingum á að beita fyrir kosningarnar árið 2022, sem tryggir Samfylkingunni áframhaldandi völd ? Hversu lengi er hægt að plata kjósendur til fylgis við ómögulega stjórnmálaflokka ? Vonandi ekki endalaust.
Meginflokkur: Sveitarstjórnarkosningar | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:19 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.